Frá miðju ári 1993 hefur Sjúkraþjálfun Kópavogs verið til húsa að Hamraborg 12, og frá 1.mars 1999 í eigin húsnæði á annarri hæð hússins. Starfsemin fer nú fram í 430 m2 húsnæði og þar starfa 10 sjúkraþjálfarar ásamt 2 móttökuriturum.
Grunnurinn að Sjúkraþjálfun Kópavogs ehf. var lagður árið 1980. Þá var settur á laggirnar sjálfstæður rekstur um sjúkraþjálfun í húsnæði Heilsugæslu Kópavogs í Fannborg. Kópavogsbær lét af hendi húsnæði og allan búnað en Hilmir Ágústsson og Ómar Torfason sjúkraþjálfarar sáu um rekstur þessarar fyrstu sjálfstætt reknu sjúkraþjálfunarstofu á landinu. Heilsugæsla Kópavogs var um þetta leiti eina heilsugæslan á landinu sem hafði sjúkraþjálfun innan dyra. Á þessum tíma, var einungis rekin sjúkraþjálfun hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra við Háaleitisbraut, á Reykjalundi og á Grensásdeild Borgarspítalans auk sjúkraþjálfunardeilda spítalanna.
Ágústa Sigfúsdóttir og Guðný Lilja Oddsdóttir sjúkraþjálfarar komu til liðs við sjúkraþjálfunarstofuna árin 1980 og 1981. Kristján Hjálmar Ragnarsson og Svandís Hauksdóttir sjúkraþjálfarar hófu störf þar árið 1986. Árið 1989 var rekstrinum breytt í hlutafélag og voru eigendur þá auk núverandi eigenda, Ágústa Sigfúsdóttir og Svandís Hauksdóttir.
Síðan þá hafa þrisvar sinnum orðið breytingar á eignahaldi fyrirtækisins, en fyrirtækið er nú í eigu Kristjáns Hjálmars Ragnarssonar, Þórðar Magnússonar og Björns Björnssonar sem allir starfa hjá Sjúkraþjálfun Kópavos.
Sjúkraþjálfun er starfsgrein á heilbrigðissviði sem byggist á hreyfivísindum en starfsheiti stéttarinnar er verndað samkvæmt lögum. Um er að ræða sérsvið sem aðeins þeir sem hafa tilskilda menntun, réttindi og þekkingu mega veita.
Námsbraut í sjúkraþjálfun tilheyrir Læknadeild Háskóla Íslands. Námsbrautin var stofnuð árið 1976 og fyrstu sjúkraþjálfararnir voru útskrifaðir frá Háskóla Íslands árið 1980.
Nám í sjúkraþjálfun skiptist í þriggja ára BS-nám í sjúkraþjálfunarfræðum og tveggja ára MS-nám í sjúkraþjálfun. Hægt er að sækja um starfsleyfi sjúkraþjálfara að loknu MS-náminu.
>>> BS-námið er fræðilegt og verklegt 180 eingina grunnnám.
>>> MS-nám í sjúkraþjálfun er fræðilegt og klínískt tveggja ára nám til 120 eininga.
Sagan geymir lýsingar af sjúkraþjálfunar-meðferð allt frá árinu 2600 fyrir Kristsburð, en þó er talið að rekja megi upphaf greinarinnar til 18. aldar. Forvígismaður hennar var sænskur áhugamaður um leikfimi, Per Henrik Ling að nafni en hann stofnaði Gymnastik Institut í Stokkhólmi.
Lengi vel var starf sjúkraþjálfara ekki metið sem skyldi og jafnvel óljóst hvernig skilgreina ætti hlutverk þeirra. Í gegnum tíðina hefur sjúkraþjálfunarstarf hins vegar smám saman verið skilmerkilega útlistað. Í dag er fagið í mikillli sókn sem hliðar- og stoðgrein læknisfræði og starfsvettvangur sjúkraþjálfara breikkar með ári hverju.
Hlutverk sjúkraþjálfara snýr aðallega að greiningu, mati og ýmiss konar meðhöndlun á truflunum á hreyfigetu sem stafa oftast af vandamálum í stoðkerfi líkamans. Á seinni árum hafa sjúkraþjálfarar einnig í aukunum mæli unnið að forvarnarstarfi á vinnumarkaðinum sem og sinnt ráðgjöf og meðferð hjá þátttakendum í íþróttum.
Þróun starfsstéttarinnar á Íslandi hófst upp úr 1930, en þá unnu sjúkraþjálfarar eða svokallaðar „nuddkonur” á stofum hjá nuddlæknum sem svo voru nefndir. Sjálfar höfðu þær þó ekki heimild til stofureksturs í Reykjavík. Um 1940 eru þrjár slíkar stofur starfræktar en nuddkonur voru þó ýmist meðeigendur eða launþegar. Sama ár, þann 26.apríl stofna átta konur Félag íslenskra nuddkvenna. Sex af þessum konum höfðu hlotið menntun erlendis en tvær voru menntaðar hér á landi í Nuddlækingaskóla Jóns Kristjánssonar, nudd- og gigtarlæknis. Í fyrstu lögunum kemur fram að markmið félagsins sé að semja launataxta sem allir félagsmenn fari eftir og að gæta hagsmuna stéttarinnar á sama grundvelli og almenn stéttarfélög. Eftir því sem fjölgaði í stéttinni hófst baráttan fyrir löggildingu starfsins. Fyrstu löggildingarskírteinin voru afhent á félagsfundi 12.des 1956. Árið 1962 var nafni félagsins breytt í Félag íslenskra sjúkraþjálfara (FÍSÞ) en þá voru a.m.k þrír karlmenn í félaginu. Sama ár eru fyrstu lögin um sjúkraþjálfun samþykkt á Alþingi. Ný lög voru lögð fram á Alþingi og samþykkt árið 1976 eftir langt þóf félagsins með heilbrigðisráðherra, lögfræðingi heilbrigðisráðuneytisins, heilbrigðisnefnd Alþingis og endurhæfingarlæknum.
Á þessum árum komu sjúkraþjálfarar einnig að íþróttakennslu í skólum og voru viðstaddir læknisskoðun barna. Síðar starfa þeir einkum á sjúkrahúsum og stofnunum en upp úr 1980 færist í vöxt að sjúkraþjálfarar opni einkastofur og árið 2000 eru þær orðnar um 50 talsins. Í kjölfar þeirrar aukningar sem varð á fjölda sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara á 8. og 9.áratugnum – bæði þeirra sem stóðu í eigin rekstri og hinna sem störfuðu á stofum sem reknar voru af öðrum – hófst samstaða um stofnun félags þeirra sem störfuðu sjálfstætt. Það var úr árið 1990 að FSSS eða Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara var sett á laggirnar. Afráðið var að félagið skyldi fyrst og síðast sinna hagsmunagæslu félagsmanna sinna og vinna að bættum kjörum þeirra.
Eins og málum er háttað í dag er Félag íslenskra sjúkraþjálfara því fagfélag en Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, hagsmunafélag.
Árið 1973 var gerð breyting á almannatryggingalögum sem opnaði samningaleið við Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Fyrsti almenni samningurinn sem gerður var milli sjúkraþjálfara og Tryggingastofnunar var gerður árið 1973. Honum var síðan sagt upp árið 1975. Ekki var samið að nýju fyrr en árið 1980. Deilur urðu síðan um túlkun samningsins og sagði TR honum upp árið 1985. Ekki tókust nýir samningar fyrr en þremur árum seinna, 1988. Þá var samþykkt að tvískipta samningnum, annars vegar voru samþykktar greiðslur fyrir þá sem unnu á stofum sjúkraþjálfara og hins vegar fyrir þá sem störfuðu á stofnunum. Aldrei varð þó sátt um þennan samning meðal sjúkraþjálfara.
Árið 1993 urðu þær gagngerðu breytingar á samningnum að Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar fengu atkvæðarétt um samninginn við Tryggingastofnun. Einnig var þá ákveðið að samninganefnd félagsins við TR skyldi þannig skipuð að Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara skipaði tvo fulltrúa í samninganefnd en Félag íslenskra sjúkraþjálfara einn fulltrúa. Þessi áfangi olli stórkostlegum tímamótum í sögu Félags sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara.
Árið 1995 var enn gerður nýr samningur við TR og var þá samþykktur „kvóti” á sjúkraþjálfun. Samkvæmt samningnum var ekki leyfilegt að fjölga sjúkraþjálfurum í sjálfstæðum rekstri né fjölga stofum sjúkraþjálfara nema með leyfi samráðsnefndar TR og FÍSÞ sem sett var á stofn. Samningurinn var síðar kærður til Samkeppnistofnunar en áður en stofnunin lagði fram úrskurð sinn, sem var þess eðlis að ólöglegt væri samkvæmt samkeppnislögum að setja kvóta á hvaða sjúkraþjálfarar mættu stunda sjálfstæðan rekstur, var nýr samningur við TR undirritaður þar sem kvótakerfið var afnumið. Þetta var vorið 1998 og er sá hluti samningsins er varðar kvótann enn í gildi.
Þann 1. apríl 2002 var undirritaður nýr samningur milli FSSS og HTR ( Heilbrigðis- og Tryggingarstofnun Ríkisins). HTR var þá nýstofnsett samninganefnd ráðherra, skipuð aðilum frá Tryggingastofnun, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Í þessum samningi náðu sjúkraþjálfarar fram mörgum af sínum baráttumálum. Þar má helst nefna: skoðunargjald sem í lok samnings var orðið tvöfalt meðferðargjald, sérstaka gjaldskrá fyrir barnasjúkraþjálfun og hærri gjaldskrá fyrir framhaldsmenntaða félagsmenn.
- MJÓBAKSVERKIR eftir þóru Hugosdóttir
- SNJALLTÆKJANOTKU OG VERKIR eftir Guðný Lilju Oddsdóttir