Slitgigt

Eftir Þóru Hugosdóttur, Sjúkraþjálfara

Slitgigt (e. Osteoarthritis) er langvinnur sjúkdómur sem getur herjað á einn eða fleiri liði líkamans. Slitgigt er algengur gigtarsjúkdómur og algeng orsök stoðkerfisvandamála. Það sem gerist í liðunum er að brjóskið við enda beinanna þynnist smám saman (1). Hlutverk brjósksins er meðal annars að stuðla að mjúkum hreyfingum um liðina. Með tímanum getur aukinn þrýstingur á beinin valdið því að það myndast beinnabbar við enda beinanna (1). Þetta getur valdið auknum verkjum og stirðari hreyfingum. Slitgigt getur komið fram í öllum liðum líkamans en er algengust í mjöðmum, hnjám og höndum. Verkir eru oft partur af einkennum slitigigtar en þó er ekki góð fylgni milli verkja og þessara breytinga sem verða í liðnum. Það er vegna þess að verkir eru upplifun sem mótast af mörgum þáttum, ekki aðeins þess sem gerist í vefjunum heldur líka vegna flókins samspils andlegra, líkamlegra og félagslegra þátta og úrvinnslu þessara þátta í heilanum.

Slitgigt verður algengari eftir því sem við eldumst en getur þó komið fram hjá yngra fólk og þá sérstaklega ef fólk hefur sögu um fyrri meiðsli í liðum. Þrátt fyrir að slitgigt verði algengari með hækkandi aldri þá getur fólk samt náð framförum hvað varðar verki og færni með tímanum. Það er mikilvægt að vera meðvitaður um jákvæðu og breytilegu þættina og skilja hvernig hægt er á virkan hátt að ná bætingu hvað varðar verki og færni.

Áhættuþættir

 • Að vera í ofþyngd
 • Fyrri meiðsli í lið (t.d. algengt í hnélið (2))
 • Saga um einhæft og endurtekið álag á liði
 • Fjölskyldusaga um slitgigt

Einkenni

 • Verkir eru algengt einkenni, það sem ýtir undir verki eru oftast of mikil eða of lítil hreyfing um liðinn
 • Stífleiki (sérstaklega ef fólk er ekki í mikilli líkamlegri virkni)
 • Skert færni í daglegum athöfnum, oft er þetta tengt verkjum
 • Skert lífsgæði sem afleiðing af öðrum einkennum

Greining

Samkvæmt klínískum leiðbeiningum frá NICE (National Institute for Health and Care Excellence)(3) er hægt er að greina slitgigt með klínískri skoðun án myndgreiningar ef að fólk er

 • 45 ára eða eldra og
 • Með verki í liðum tengt hreyfingum/virkni og
 • Er annað hvort ekki með stífleika í liðum á morgnana eða upplifir stífleika í liðum á morgnana í minna en 30 mínútur.

Að auki er hægt að nota röntgenmynd, segulómun eða blóðprufu til greiningar en það er aðallega notað til að útiloka aðra sjúkdóma. Eins og nefnt var að ofan sjást breytingar á brjóski og/eða beinum á röntgenmynd og segulómun en það sem sést á mynd er ekki endilega í samhengi við verkina sem fólk upplifir og er því ekki hjálplegt í að ákvarða meðferðaráæltun.

Meðferð

Slitgigt er langvinnur sjúkdómur og því þarf heildræna meðferðaráætlun sem er sniðin að þörfum og markmiðum hvers og eins. Best er að leggja áherslu á virka sjálfsmeðferð með aðstoð heilbrigðisstarfsmanns. Algengt er að fólk með slitgigt sé einnig með aðra sjúkdóma tengda öldrun og ofþyngd. Þetta geta t.d. verið hjarta og æðasjúkdómar, sykursýki og andlegir sjúkdómar eins og þunglyndi eða kvíði. Ef um er að ræða fjölþætt vandamál þ.e. blöndu af sjúkdómum þá er mikilvægt að taka inn í myndina fjölskylduþætti, félagslega þætti, vinnu- og umhverfisþætti og setja upp góða og heildræna meðferðaráætlun sem inniheldur alla þá þætti sem hafa áhrif á vandamálið. Í sumum tilfellum getur verið gott að vera með teymi af heilbrigðisstarfsfólki í kringum sig sem er með mismunandi þekkingu til að huga að öllum þáttum.

Samkvæmt klínískum leiðbeiningum frá NICE eru þrír þættir sem eru mikilvægastir í meðferð við slitgigt (3).

 1. Fræðsla og sjálfsmeðferð. 

  Að vera vel upplýstur. Hafa aðgang að góðum upplýsingum varðandi slitgigt til að auka skilning. Fá góða fræðslu bæði munnlega og skriflega og tækifæri til að spyrja spurninga. Fá leiðréttingu ef einhver vafi eða misskilningur um slitgigt á sér stað. Algengur miskilningur er að ástandið muni bara fara versnandi, að það sé engin meðferð í boði eða að aðgerð sé það eina sem geti lagað slitgigtina.Sjálfsmeðferðir. Heilbrigðisstarfsmaður og skjólstæðingur ákveða saman einstaklingsmiðuð meðferðarúrræði (þar með talið hópþjálfun ef við á). Mikilvægt er að gerðar séu jákvæðar atferlisbreytingar eins og að stunda hreyfingu (passa að ekki sé gert of lítið né mikið), stuðla að heilbrigðri þyngdarstjórnun og athuga skóbúnað (fyrir fólk með slitgigt í neðri útlimum). Notkun heitra og kaldra bakstra getur verið hjálplegt sem einkennameðferð samhliða öðrum úrræðum.

 2. Líkamleg virkni og þjálfun. 

  Þjálfun og meðferð hjá sjúkraþjálfara. Þjálfun á bæði að innihalda sérhæfðar styrktaræfingar fyrir þann lið eða liði sem um ræðir og einnig þolþjálfun sem er almennt góð fyrir hjarta og æðakerfið, líkamann í heild og andlega heilsu. Sama á hvaða aldri fólk er og hvaða aðra sjúkdóma það hefur, hversu mikill verkurinn er og hversu mikil færniskerðingin er, að þá á þetta úrræði alltaf að verða fyrir valinu. Mörg þjálfunarúrræði eru í boði, meta þarf hvert og eitt tilfelli fyrir sig og ákveða hvaða form þjálfunar hentar best hverju sinni.Liðlosun, mjúkpartameðferð og teygjur geta verið hjálpleg meðferðarúrræði í sumum tilfellum til viðbótar við þjálfun.

 3. Þyngdarstjórnun.
  Fyrir þá sem eru í ofþyngd eða offitu þarf meðferðarúrræði til að stuðla að þyngdartapi.

Aðrar meðferðir sem geta hjálpað eru rafmagnsmeðferðir, spelkur og innlegg, og hjálpartæki eins og hækjur, griptangir og fleira. Þessi meðferðarúrræði eru ekki jafn árangursrík og hin þrjú nefnd að ofan og ættu því aðeins að vera notuð sem auka meðferð með hinum þremur.

Nokkur ráð til að auka lífsgæði

 • Að hafa sem bestan skilning á slitgigt og því sem maður upplifir eykur sjálfsöryggi og metnað í að hjálpa sér sjálfur og dregur úr neikvæðum hugsunum um framtíðina.
 • Upplýsa aðstandendur um slitgigt og hjálpa þeim að skilja betur það sem maður upplifir. Einnig að biðja um eða þiggja aðstoð eins og þarf.
 • Að vera virkur í að ákveða meðferðarúrræði með heilbrigðisstarfsmanni, ekki bara þiggja þjónustu án þess að mynda sér skoðun.
 • Hreyfa sig daglega. Hreyfing er nokkurs konar náttúrulegt verkjalyf fyrir líkamann ásamt því að vera holl fyrir líkama og sál. Mikilvægt er að velja hreyfingu sem manni þykir skemmtileg.
 • Hollt mataræði og þyngdarstjórnun.
 • Nota slökunarúrræði eins og hvíld, slökun, hugleiðslu, jóga eða sund.
 • Finna sinn meðalveg. Gera frekar lítið í einu í stað þess að keyra sig út. Sumir þurfa að skipuleggja daginn sinn með reglulegum pásum til að ná að gera það sem þeim þykir mikilvægt.
 • Setja sér markmið og áætlun um það hvernig skal ná markmiðunum. Það getur verið gott að gera þetta í samvinnu við sjúkraþjálfara og fá aðstoð með gerð áætlunarinnar. Best er að hafa markmið sem hafa mikla þýðingu fyrir mann og sem tengjast lífsgæðum manns.
 • Að hreyfa sig eðlilega í daglegum athöfnum eins og að beygja sig eða lyfta upp hlut er mikilvægt. Algengt er að fólk fari að beita sér öðruvísi vegna verkja en það getur stundum gert illt verra.
 • Líkamsstaða getur skipt máli. Gott er að breyta reglulega um stöður í stað þess að vera fastur í einni líkamsstöðu. Liðkun og teygjur geta hjálpað til.
 • Að aðlaga daglegar athafnir til að minnka álag á liði. Dæmi getur verið að nota létt eldhúsáhöld sem auðvelt er að vinna með.

Lyf og aðgerðir

Ekki eru til lyf sem hafa áhrif á liðina og geta breytt ástandinu. Verkjalyf geta verið hjálpleg sem partur af heildrænni meðferð. Aðal markmiðið með verkjalyfjum á að vera að veita tækifæri til að sinna meðferðinni, þ.e. fá verkjastillingu til að geta verið virkur, haldið áfram í vinnu og sinnt athöfnum daglegs lífs, stunda reglulega þjálfun og vinna í þyngdartapi (ef þarf). Samkvæmt klínískum leiðbeiningum NICE er mælt með paracetamol og bólgueyðandi verkjalyfjum (NSAIDs) sem fyrsta stigs verkjalyfjum sem viðbót við aðal meðferðirnar þrjár hér að ofan (3). Sterasprautur geta verið notaðar þegar verkir vegna slitgigtar eru alvarlegir. Læknir eða lyfjafræðingur geta leiðbeint með verkjalyf.

Aðgerðir við slitgigt geta verið partur af meðferðaráætlun fyrir suma en alls ekki alla. Alltaf er ráðlagt að byrja á öðrum meðferðum, ef það hins vegar skilar engum árangri er hægt að skoða möguleika á aðgerðum. Rannsókn á liðskiptaaðgerð á hné vegna slitgigtar hefur sýnt fram á að 20% af þeim sem fara í slíka aðgerð upplifa ennþá verki eftir aðgerð (4). Þetta undirstrikar mikilvægi heildrænnar meðferðar en ekki einungis að einblína á hnéliðinn.

Heimildir

 1. D. Pearle, et al., Basic science of articular cartilage and osteoarthritis, Elsevier Sounders, 2005: 1-12.
 2. Amin S, et al. Complete anterior cruciate ligament tear and the risk for cartilage loss and progression of symptoms in men and women with knee osteoarthritis. Osteoarthr Cartil 2008 Aug;16(8):897-902
 3. National Clinical Guideline Centre. Osteoarthritis. Care and management in adults. Clinical guideline CG177. Methods, evidence and recommendations. London; National Institute for Health and Care Excellence 2014.
 4. Bossmann T, Brauner T, Horstmann T. 2017. Predictors of chronic pain following total knee replacement in females and males: an exploratory study. Pain Manag. 7(5):391–403.

Myndaskrá

 1. http://www.socalpain.com/wp-content/uploads/2014/02/KneePain.jpg
 2. http://files.seetharamkandarpa.webnode.in/200000014-6f1de71127/Knowledge-1024×768.jpg
 3. http://i.huffpost.com/gen/1408857/thumbs/o-EXERCISE-MORNING-facebook.jpg
 4. http://blog.cranesmill.org/wp-content/uploads/2013/12/Healthy-Food.jpg