Eftir Þóru Hugosdóttur, Sjúkraþjálfara
Að hafa betri þekkingu og skilning á því sem maður upplifir hjálpar manni að takast á við vandamálið og að taka upplýstar ákvarðanir um meðferðarúrræði. Hér að neðan getur þú fræðst um bakverki. Ef eitthvað er enn óljóst þá skaltu spyrja heilbrigðistarfsmann sem er með góða þekkingu á bakverkjum frekari spurninga.
Algengi
Um 80% af fólki upplifir bakverki á einhverjum tímapunkti í lífinu, en sem betur fer er það sjaldnast alvarlegt (1). Í sumum tilfellum geta bakverkir valdið miklum óþægindum og truflunum í daglegu lífi, dregið úr virkni og haft neikvæð áhrif á lífsgæði fólks. Í þessum tilfellum getur þetta einnig haft áhrif á fólkið í kringum einstaklinginn eins og fjölskyldu og vini.
Sértækir (e. specific) og ósértækir (e. non-specific) bakverkir
Tegundum af mjóbaksverkjum er skipt upp í sértæka og ósértæka bakverki. Sértækir eru óalgengir (5-10% af öllum bakverkjum) (1,2). Þessi tegund bakverkja eru þegar verkirnir eru vegna ákveðinnar meinafræði í bakinu, þ.e. verkir tengt krabbameini, sýkingu, beinbroti, bólguviðbragði eða taugaklemmu með tilheyrandi kraftleysi og skyntruflunum niður í fót (2).
Í flestum tilfellum er um ósértæka bakverki að ræða eða í 90-95% tilfella. Þá er bakverkurinn ekki tengdur ákveðinni meinafræði í bakinu (3). Algengasta orsök bakverkja er tognun sem gerist oft þegar bakið er viðkvæmara en ella. Algengar ástæður þess að bakið verður viðkvæmara er álag, þreyta, streita, stress, depurð, svefnleysi, of lítil líkamleg virkni eða of mikil (4). Við slíka tognun getur fólk fundið fyrir miklum verkjum og hræðslu við verkinn. Minnstu hreyfingar geta verið mjög sárar vegna þess að vöðvarnir bregðast við með varnarspennu. Í flestum tilfellum líður þessi verkur hjá að mestu leyti á einni til tveimur vikum.
Til að finna út hvora tegundina af bakverk fólk er með eru notaðar skimunar spurningar fyrir ákveðinni meinafræði ásamt upplýsingum úr heilsufarssögu einstaklingsins (2). Læknir eða sjúkraþjálfari skimar fyrir þessum þáttum í upphafi fyrsta tíma.
Langvinnir bakverkir (e. chronic low back pain)
Lítill hópur af fólki upplifir það að verkurinn er enn til staðar eftir meira en 2-3 mánuði. Þetta er samt í flestum tilfellum ekki heldur tengt ákveðinni meinafræði í bakinu og því ekki um neinn vefjaskaða að ræða. Við vitum hins vegar að þættir sem spá fyrir um áframhaldandi bakverki og langvinna bakverki tengjast hugsunum okkar (örvænting, neikvæðar hugsanir, hræðsla og ótti við ástandið og að treysta ekki bakinu), tilfinningum (stress, kvíði, þunglyndi, leiði, pirringur) og okkar daglegu rútínu (svefn, varnarspenna, mataræði, reykingar og áfengisneysla, að forðast hreyfingar og virkni, að vera undir of miklu álagi, vinna) (4). Allir þessir þættir geta gert taugakerfið okkar viðkvæmara en ella og í sumum tilfellum lendir fólk í vítahring verkja og óvirkni. Í slíkum tilfellum er gott að kortleggja þennan vítahring og finna út hvaða áhrifaþættir eru breytanlegir og byrja á litlum breytingum til betri lífstíls til að rjúfa hringinn.
Meðferð
Meðferð við sértækum bakverk fer eftir því hver meinafræðin er og læknir og/eða sjúkraþjálfari setur upp áætlun og leiðbeinir þér með meðferð við því. Ef um er að ræða taugaklemmu með brjósklosi að þá lagast það í flestum tilfellum að sjálfu sér á 3-6 mánuðum og brjósklosið hverfur. Sjaldnast er þörf á aðgerð við brjósklosi nema ef breytingar verða á þvag- og/eða hægða stjórn eða ef vöðvakraftur minnkar stigvaxandi. Sjúkraþjálfari getur ráðlagt þér varðandi endurhæfingu meðan á bataferlinu stendur.
Ráðlögð meðferð við ósértækum bakverk samkvæmt núverandi rannsóknum (5) er að
- Taka því rólega í einn eða tvo daga, á sama tíma að stigvaxandi auka hreyfingu og virkni og reyna svo að halda sér jafn virkum og venjulega.
- Forðast að liggja í rúminu.
- Þér er óhætt að mæta í vinnu (þó þú gætir þurft að aðlaga verkefnin) og það gæti hjálpað þér að gleyma þér og hugsa minna um verkinn.
- Taka einföld verkjalyf ef þarf (parasetamol +/- bólgueyðandi lyf) (6).
Meðferð við langvinnum bakverkjum getur þurft að vera viðameiri og er sniðin að þörfum hvers og eins, því að hver einstaklingur hefur sinn bakgrunn og mismunandi áhrifaþætti. Samt sem áður eru ákveðnir grunnþættir sem að eru hollir öllum þeim sem eru með bakverki (7,8).
- Jákvæðar hugsanir og tilfinningar. Þetta getur verið erfitt og það er mjög algengt fyrir fólk með bakverki að upplifa kvíða, ótta, leiða og fleiri neikvæðar tilfinningar. Mundu að bakverkir eru sjaldnast hættulegir og oftast lagast þeir. Ef þú upplifir neikvæðar tilfinningar er mikilvægt að ræða það við heilbrigðisstarfsmann til að geta fengið aðstoð við því.
- Læra að slaka á. Ýmsar leiðir eru til þess t.d. slökun, hugleiðsla, núvitund, jóga.
- Læra að hreyfa sig eðlilega. Hræðsla við verki eða hreyfingar veldur því oftast að fólk verður mjög spennt í líkamanum og fer að ofvernda líkamann. Þessi viðbrögð örva taugakerfið og magna þannig upp verkina. Að ná að slaka á varnarspennu og hreyfa sig áreynslulaust dregur í flestum tilfellum mikið úr verkjum. Öndunaræfingar, rólegar og slakar hreyfingar og almenn virkni slakar á taugakerfinu og minnkar þannig verkjaboðin í líkamanum.
- Hreyfðu þig daglega. Hreyfing gerir það að verkum að líkaminn framleiðir náttúrulega verkjastillingu. Þannig er hægt að líta á hreyfingu sem verkjalyf. Þó þú finnir til þá er betra að hreyfa sig heldur en ekki því að verkur þýðir ekki endilega að þú sért að gera líkamanum skaða. Mikilvægt er að finna sinn milliveg, ekki gera of mikið og ekki of lítið.
- Það tekur tíma fyrir líkamann að vinda ofan af langvinnum verkjum og því er eðlilegt að finna verki áfram þó þú sért byrjuð/aður í endurhæfingu. Þolinmæði er lykillinn til að halda áfram. Í sumum tilfellum hverfa verkirnir aldrei alveg og þá þarf að læra leiðir til að lifa með ástandinu á sem bestan máta.
- Forðastu að liggja í rúminu og reyndu að mæta í vinnu þó þú gætir þurft að aðlaga verkefnum. Þessir þættir hafa jákvæð áhrif á bataferlið.
- Heilbrigðar svefnvenjur eru t.d. að draga úr skjátíma, alkóhóli og koffíni fyrir svefn til að auka gæði svefnsins, fara að sofa á sama tíma á kvöldin og vakna á sama tíma á morgnana, og sofa í 7-9 tíma á nóttu. Slökun getur verið hjálpleg fyrir svefninn til að róa hugann.
- Holl næring er einnig mikilvæg því að rannsóknir sýna að tengsl eru milli kviðfitu og bakverkja og ofþyngd getur valdið kerfislægri bólgu í líkamanum. Ef þú þarft aðstoð við að létta þig geturðu haft samband við heilbrigðisstarfsmann.
- Reykingar eru einn af áhrifaþáttum fyrir langvarandi bakverkjum, því gæti verið hjálplegt að fá aðstoð við að hætta.
- Að taka ábyrgð á eigin meðferð er mikilvægt, því meira sem þú getur gert sjálf/ur til að hjálpa þér í stað þess einungis að þiggja hjálp, því meiri stjórn hefurðu yfir ástandinu og því betri verður útkoman. Að hafa aðgang að góðum heilbrigðisstarfsmanni sem getur leiðbeint þér með leiðir til sjálfshjálpar er mjög hjálplegt.
- Í sumum tilfellum geta verkjalyf verið hjálpleg (paracetamol +/- bólgueyðandi lyf), fáðu aðstoð læknis eða lyfjafræðings við að ákveða hvað hentar þér. Ekki er ráðlagt að taka morfínskyld lyf við bakverkjum.
Myndgreiningar
Myndrannsóknir eru ekki ráðlagðar til að greina bakverki nema ef grunur leikur á um sértækan bakverk (9,10). Vandamálin við myndgreiningar eru þær að flestir, hvort sem þeir eru með bakverk eða ekki eru með aldurstengdar breytingar á disknum í bakinu (80%) , þar með talið útbunganir (50%) (9). Þessu má líkja við grá hár og hrukkur og að sjá þessar breytingar á myndrannsóknum spáir ekki fyrir um verki (10). Í sumum tilfellum getur jafnvel verið skaðlegt að fá slíkar upplýsingar úr myndrannsókn því að fólk verður gjarnan hrætt við orð eins og „útbungun í baki“ eða „slit í baki“ og fer að hafa óþarfa áhyggjur og passa á sér bakið, beita sér á óhjálplegan hátt og jafnvel draga úr virkni.
Mýtur
Mýtur um bakverki eru margar og mjög óhjálplegar (11). Dæmi um slíkar eru að bakið sé slitið, ónýtt eða „gefi sig”, að bakið sé skakkt eða snúið, að lyftingar séu hættulegar fyrir bakið, að æfingar séu hættulegar fyrir bakið, að fólk með bakverki megi ekki beygja sig eða lyfta, að bakverkir verði verri með aldrinum, að bakið sé óstöðugt eða veikburða.
Sannleikurinn er hins vegar nokkurn veginn öfugt við þetta (11):
- Bakið er mjög sterktbyggt og það gefur sig ekki
- Bakið elskar æfingar, hreyfingu og þegar eigandi þess treystir því
- Bakverkir eru sjaldnast tengdir skaða á vefjum í bakinu
- Bakverkir verða ekki verri eftir því sem við eldumst.
Heimildir
- Hoy D, Bain C, Williams G, og fl. A systematic review of the global prevalence of low back pain. Arthritis Rheum. 2012;64(6):2028-2037.
- Traeger AC, Henschke N, Hübscher M, og fl. Estimating the risk of chronic pain: Development and validation of a prognostic model (PICKUP) for patients with acute low back pain. Plos Med. 2016;13(5):e1002019.
- Zusman M. Forebrain-mediated sensitization of central pain pathways: ‘Non-specific’ pain and a new image for MT. Manual Ther. 2002;7(2):80-88.
- Barsook D, Kalso E,. Transformin pain medicine: Adapting to science and society. Eur J Pain. 2013;17(8):1109-1125.
- NSW Agency for Clinical Innovation. Management of people with acute low back pain: model of care. Chatswood; NSW Health; 2016.39p. Sótt þann 29.1.2019 af: https://www.aci.health.nsw.gov.au/__data/assets/pdf_file/0007/336688/acute-low-back-pain-moc.pdf
- Schug SA, Goddard C. Recent advances in the pharmacological management of acute and chronic pain. Ann Palliat Med 2014; 3(4): 263-75.
- Savigny P, Kuntze S, Watson P, og fl. Low Back Pain: Early Management of Persistent Non-specific Low Back Pain. National Institute for Health and Care Excellence, London; 2009.
- Angel Garcia D, Martinez Nicolas I, Saturno Hernandez PJ, Lopez Soriano F. Clinical approach to chronic lumbar pain: a systematic review of recommendations included in existing practice guidelines. An Sist Sanit Navar 2015; 38(1): 117-30.
- Brinjikji W, Luetmer PH, Comstock B, og fl. Systematic literature review of imaging features of spinal degeneration in asymptomatic populations. Am J Neuroradiol 2015; 36(4): 811.
- Steffens D, Hancock M, Maher C, Williams C, Jensen T, Latimer J. Does magnetic resonance imaging predict future low back pain? A systematic review. Eur J Pain. 2014;18:755–765.
- O’ Sullivan P, Slater H. Conditions: Low back pain [skjal á internetinu]. PainHEALTH. Sótt þann 29.1.2019 af https://painhealth.csse.uwa.edu.au/pain-module/low-back-pain/