Fræðsla / Meðferðarform

Höggbylgjur

Höggbylgjumeðferð (e. extracorporeal shock wave therapy, ESWT) er meðferðarúrræði sem notar hljóðbylgjur með mikilli orku til að örva gróanda í beinum, sinum og vöðvum.

Upphaflega var tæknin þróuð til að brjóta niður nýrnasteina (lithotripsia), en hefur einnig fengið notagildi í bæklunarlækningum, íþróttalækningum og sjúkraþjálfun vegna getu hennar til að hraða vefjaviðgerðum og draga úr verkjum.

Höggbylgjumeðferð

Meðferðin felst í því að hljóðbylgjum er beint í gegnum húðina að viðkomandi svæði. Þessar bylgjur auka blóðflæði, örva frumur til viðgerða og geta brotið niður kalkútfellingar. Tvær megingerðir höggbylgja eru notaðar, einsleitar höggbylgjur (focused) sem ná dýpra í líkamsvefina og útbreiddar bylgjur (radial) sem eru notaðar á yfirborðsfleti.

Höggbylgjumeðferð er oftast notuð við langvinnum sinasjúkdómum eins og t.d. hásinarbólgum (achilles tendinopathy), hælsporabólgum (plantar fascitis), tennisolnboga (lateral epicondylitis) og við kalkútfellingum í öxl (calcific tendinitis). Rannsóknir sýna að meðferðin getur dregið úr verkjum og bætt færni, sérstaklega þegar aðrar meðferðaraðferðir hafa ekki skilað árangri.

Meðferðin er yfirleitt veitt 5-10 sinnum, með u.þ.b. 7-10 daga millibili. Hún getur valdið vægum tímabundnum óþægindum en er yfirleitt vel þolanleg og krefst ekki svæfingar. Aukaverkanir eru sjaldgæfar en geta verið væg bólga, roði eða verkur á meðferðarsvæðinu.

Höggbylgjumeðferð hentar þó ekki öllum. Meðal frábendinga eru meðganga, blóðstorkuvandamál, sýking eða illkynja mein á meðferðarsvæði og gangráður í hjarta. Árangur meðferðar getur einnig verið mismunandi eftir sjúkdómi og einstaklingsbundnum þáttum.

Að lokum má segja að höggbylgjumeðferð sé góður valkostur við meðhöndlun langvinnra stoðkerfisverkja og stuðlar að gróanda í mjúkvefjum. Með áframhaldandi rannsóknum og klínískum tilraunum má vænta að notkunin verði útbreiddari og skilvirkari í endurhæfingarstarfi.

Scroll to Top